top of page

Fælnir (fóbíur)

Fælnir (fóbíur) eru hluti af því sem við vinnum reglulega með í dáleiðslunni. Margir einstaklingar þjást af fælnum, sumar þeirra virðast nokkuð „eðlilegar“ en svo eru aðrar fælnir sem þykja ef til nokkuð skrýtnar og stundum hreint út sagt fáránlegar. En það má þó ekki gleyma því að hversu skrýtin eða fáránleg sem fælnin virðist vera fyrir þeim sem þjást ekki af henni þá er þessi fælni mjög raunveruleg í huga þess sem upplifir hana.

 

Fælnir geta verið af ýmsum toga og fjölbreyttar. Þar á meðal eru: fælni gagnvart geitungum (Spheksophobia), flughræðsla (Aviophobia), köngulóafælni (Arachnophobia), lofthræðsla (Acrophobia), vatnshræðsla (Aquaphobia), sýklahræðsla(Mysophobia) o.s.frv.

Hvað veldur fælnum (fóbíum)?


Það er mjög einstaklingsbundið hvað það er sem veldur fælni hjá viðkomandi. Það sem fælnirnar eiga þó sameiginlegt er að þær verða til vegna „mótunar“. Þessi mótun byggist á orsök (upphafleg mótun) og afleiðingu (viðbrögðum við áreitinu) Hjá okkur sem stundum dáleiðslu þá er oft talað orsök sem „festu“ (anchor) og afleiðingu sem „kveikju“ (trigger).


Þessi mótun getur verið vegna atburðar sem við lentum sjálf í, t.d. ef við vorum bitin af hundi og við verðum hrædd við hunda í kjölfarið, eða einhver setti könguló á okkur sem leiðir svo af sér köngulóarfælni, o.s.frv.


Fælni getur verið tilkomin vegna mótunar í uppeldi, t.d. ef móðir barns er mjög hrædd við vatn vegna þess að vinkona hennar sem var ósynd drukknaði. Þá getur það orðið til yfirfærslu á þessum ótta til viðkomandi barns, þrátt fyrir að barnið sé vel synt og aðstæður séu allt aðrar en þegar vinkona móðurinnar drukknaði. Það kemur oft fyrir hjá þeim sem leita til okkar vegna fælni að það séu fleiri ættingjar sem þjást af svipaðri eða sömu tegund fælni. Þar sem fælni stafar ekki af erfðafræðilegum þáttum þá er nokkuð öruggt að fælnin sé lærð (mótun).


Fælni getur orsakast vegna utanaðkomandi mótunar s.s. kvikmynda (t.d. köngulóarfælni vegna „Arachnophobia“ myndarinnar, trúðahræðsla eftir að hafa horft á „IT“ myndirnar, o.s.frv.)
Einnig geta fréttir, bækur, sjónvarpsþættir, samskiptamiðlar og jafnvel sögur frá vinum eða ættingjum haft þessi sömu áhrif á okkur.


Svo getur fælni líka verið tilkomin vegna mótunar sem við erum engan veginn meðvituð um. Það sem við teljum oft vera ástæðu fælninnar getur oft verið fjarri því sem reynist svo vera hin raunverulega ástæða þegar farið er að vinna með undirvitundinni til að komast að orsökinni.

 

 

Ímyndunaraflið

Það sem magnar upp þennan ótta og fælnina er ímyndunarafl okkar. Sem dæmi má nefna að þegar við horfum á gamanmynd rétt fyrir svefninn þá eru allar líkur á því að okkur gangi auðveldlega að sofna og við sofum vært. En ef við horfum á draugamynd þá eru meiri líkur að okkur gangi verr að sofna, erum sífellt að opna augun, horfa í kringum okkur eða jafnvel að kíkja undir rúmið okkar til að ganga úr skugga um að það sé ekkert þar. Þarna er ímyndunaraflið að verki.

bottom of page