
Hvað er dáleiðsla?
Það er í raun auðveldara að svara spurningunni um það hvað dáleiðsla er ekki. Komum að því síðar.
Sú skilgreining sem oftast er notuð er:
„Dáleiðsla er vitundarástand sem felur í sér aukna einbeitingu, takmarkaða athygli á utanaðkomandi þætti og aukna getu til að bregðast við tillögum“.
The American Society of Clinical Hypnosis.
En hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að dáleiðsla er náttúrulegt ástand sem við upplifum flest mörgum sinnum í viku, á mismundandi hátt og mismikið.
Algengustu dæmin um létt dáleiðsluástand eru t.d. þegar við sökkvum okkur inn í bíómyndir eða sjónvarpsþætti, dagdraumar, þegar við „sónum“ út, þegar við erum að keyra og erum allt í einu komin á áfangastað og áttum okkur svo á því að við munum ekki mikið eftir ferðalaginu sjálfu. Við förum líka í gegnum þetta vitundarstig þegar við vöknum á morgnana og rétt áður en við sofnum á kvöldin.
Í þessum tilvikum förum við í vitundarástand sem hægt væri að lýsa sem léttu dáleiðsluástandi.
Í dáleiðslu upplifir dáleiðsluþeginn að viðkomandi getur einbeitt sér mun meira að ákveðinni upplifun og minningum. Hvað varðar þessa skilgreiningu á dáleiðslu frá ASCH hér að ofan þá er átt við þegar talað er um „takmarkaða athygli á utanaðkomandi þætti“ að viðkomandi dáleiðsluþegi takmarkar athygli sína á utanaðkomandi þætti s.s. áhyggjur hversdagsins, umhverfið o.s.frv. Langflestir dáleiðsluþegar upplifa mikla ró og mikinn frið í dáleiðslunni.
Hvað varðar síðustu skilgreininguna „aukinni getu til að bregðast við tillögum“ þá er átt við að við sneiðum framhjá gagnrýnni hugsun þegar við upplifum dáleiðslu. Dæmi um gagnrýna hugsun er t.d. þegar við viljum ná einhverju takmarki en efi og neikvæðni heldur aftur af okkur, þessi innri rödd í okkur sem segir: „Þú getur þetta ekki af því að …..“, „þetta er ekki hægt af því að….“. Þegar við upplifum dáleiðslu þá er sneitt framhjá þessari gagnrýnu hugsun og með því er hægt að vinna með undirvitund dáleiðsluþegans til að ná þeim markmiðum sem viðkomandi dáleiðsluþegi hefur ekki náð meðvitað.
Þó svo flest okkar eigi auðvelt með að komast í dáleiðslu þá er viss hluti einstaklinga sem á erfitt með það. Það er erfitt að svara því hvers vegna svo er. Það getur verið að einstaklingurinn sé hræddur við dáleiðslu, sé hræddur við að missa stjórn, það sé ekki nægt traust á milli dáleiðara og dáleiðsluþega og svo getur líka verið að dáleiðsluþeginn sé of ákafur í að komast í dáleiðslu þannig að það virkar gegn honum.
Hvað er dáleiðsla EKKI?
-
Þú missir ekki stjórnina, þ.e. þú ert ekki viljalaust verkfæri í höndum dáleiðarans. Í dáleiðsluástandi kjaftar þú ekki frá leyndarmálum sem þú værir ekki tilbúin/n að segja frá í venjulegu vökuástandi. Þú brýtur ekki gegn þínum lífsgildum, hvort sem þau eru trúarleg eða af öðrum toga. Ef dáleiðarinn segir eitthvað sem brýtur gegn þínum gildum þá einfaldlega „vaknar“ þú úr dáleiðslunni eða undirvitund þín hunsar það sem sagt var. Öll dáleiðsla er í raun sjálfsdáleiðsla, viðkomandi þarf að vilja fara í dáleiðsluástand og fara eftir því sem dáleiðarinn leggur til.
-
Þú ert ekki meðvitundarlaus eða sofandi þegar þú upplifir dáleiðslu. Í raun er það svo þegar við förum í dáleiðslu að við erum mun næmari, s.s. á hljóð, lykt og á líkama okkar í heild sinni. Nafnið dáleiðsla er nokkuð villandi þar sem viðkomandi er ekki í neinu dái.
-
Það er ekki hægt að festast í dáleiðslu. Reyndar getur dáleiðsluþeganum liðið svo vel í dáleiðslunni að viðkomandi vill fá að upplifa þessar góðu tilfinningar og þessa miklu slökun sem fylgir aðeins lengur. Allir hæfir dáleiðarar kunna að bregðast við svoleiðis tilvikum.
Ef dáleiðsluþegi væri skilinn eftir í dáleiðslu þá myndi viðkomandi „vakna“ af sjálfsdáðum eftir smástund eða sofna værum blundi og vakna svo eftir það.
Það eru ekki til neinar heimildir um það að einstaklingur hafi ekki „vaknað“ úr dáleiðslu, og hefur dáleiðsla verið stunduð í nokkur þúsund ár.